—— 26.10.2023
Þá er sumri lokið en um 830.000 plöntur fóru niður í sumar á öðru starfsári YGG. Það þýðir að rúmlega 1,3 milljónir plantna hafa farið niður í loftslagsverkefnum YGG og er áætlað að þau tré muni binda rúm 250.000 tonn af koltvísýringi úr andrúmslofti næstu 50 árin. Tegundir eru sem áður greni, fura, ösp, lerki og birki. Sjö landeigendur eru í samstarfi við YGG í þessum skógræktarverkefnum og munu að minnsta kosti sex landeigendur bætast við á nýju ári. Í sumar hófum við líka tilraunaverkefni í endurheimt votlendis á einni jörð á Norðurlandi.
Skipulag næsta árs er í vinnslu en í mörg horn er að líta þar; samningar við landeigendur, framkvæmdaleyfi, fornleifaskráningar, jarðvinnsla og girðingar. Við erum einnig að skoða mælingar á kolefnisforða í jarðvegi en það er afar áhugavert verkefni og tækifærin fjölmörg að byggja upp loftslagsverkefni á þeim vettvangi.