—— 07.06.2023
Í mars síðastliðnum varð YGG fyrsta fyrirtækið til að selja vottaðar Skógarkolefniseiningarnar úr íslensku skógræktarverkefni. Kaupendur voru Íslandsbanki og Deloitte. Halda skal til haga að sú kolefnisbinding sem stendur á bak við þær einingar sem hafa verið seldar, hefur ekki raungerst þar sem trén fóru niður sumarið 2022 og kallast þær því "kolefniseiningar í bið". Haldið er utan um allar kolefniseiningar í International Carbon Registry og er ekki hægt að nýta þær á móti losun fyrr en kolefnisbindingin hefur raungerst. Fyrstu vottuðu kolefniseiningar verða því ekki tilbúnar á móti losun fyrr en eftir um fimm ár.
Kaupin sýna aftur á móti að fyrirtæki eru að horfa til framtíðar í mótvægisaðgerðum og um leið styðja þau við uppbyggingu atvinnu og þekkingar, ekki síst í dreifðari byggðum landsins. Tvö önnur skógræktarverkefni YGG eru núna í vottunarferli og er von á fleiri þegar líður á sumarið. Hægt er að skoða öll verkefni YGG hér á heimasíðunni.