—— 19.07.2023
Nú hafa tæplega 250.000 plöntur farið niður í verkefnum YGG það sem af er sumri. Í ár plöntum við öllum fimm helstu trjátegundum sem notaðar eru í íslenskri skógrækt; greni, furu, lerki, birki og ösp. Það eru þrjú skógræktarverkefni sem koma til framkvæmda í ár, tvö þeirra eru á Austurlandi og eitt á Vesturlandi. Eins hófum við undirbúning á einu verkefni í endurheimt votlendis á Norðurlandi sem okkur langar að þróa í gengum alþjóðlega staðalinn VERRA. Sú vinna er rétt á fyrstu metrunum.
Allt er samkvæmt áætlun og góður gangur í verkefnum. Plantarar hefðu mátt fá aðeins meiri veðurblíðu í júlí en hitinn hefur varla skriðið yfir 10°C hér á Austurlandi. Plantarar færa sig svo í haust á Vesturlandið og vonandi tekur það vel á móti þeim.
Samhliða framkvæmdum sumarsins er undirbúningur einnig í fullum gangi fyrir næstu verkefni, 2024 og 2025. Nú er tíminn til að vinna í korta- og greiningarvinnu fyrir ræktunaráætlanir, drónamyndatökum, fornleifaskráningum, jarðvinnslu, girðingarvinnu og ýmis konar undirbúningi sem erfitt er að sinna yfir háveturinn. Fjöldi manns kemur að verkefnum YGG í sumar eins og fyrrasumar og gaman að sjá þá fjölbreyttu þekkingu sem er að skapast í kringum verkefnin.