Saltvík og umræðan

—— 16.10.2024

Töluvert hefur gustað um Yggdrasil Carbon (YGG) síðustu vikur og verkefni fyrirtækisins í Saltvík við Húsavík.

Eitt af því sem YGG leggur mikla áherslu á í sinni vinnu er þverfaglegt samtal og samráð. Það stuðlar að sátt um verkefni og meiri sjálfbærni þeirra. Eftir að málið í Saltvík kom upp, mál sem við töldum að hefði farið í gegnum gott samráðsferli, þurftum við að setjast niður og endurskoða ferlana og horfa gagnrýnið á aðferðir. Fyrsta skrefið var að eiga fundi og samtöl til að mynda við jarðvegsfræðinga, líffræðinga, skógfræðinga og ráðuneyti.

Við höfum séð mjög skýrt í okkar starfi að loftslagslausnir verða að byggja á góðu og þverfaglegu samtali og tengslaneti sem gagnrýnir og leiðbeinir. Gott samtal og tengsl helst svo í hendur við líffjölbreytni, jarðvegsgæði, verndargildi og kolefnisforða núverandi vistgerða svo eitthvað sé nefnt. YGG fer með sín verkefni í gegnum ítarlegt og vandað kröfusett og vottun sem tryggir ákveðin gæði og gegnsæi. YGG hefur einnig gengið mun lengra en kröfur gera ráð fyrir til að auka gæðin enn frekar. Umframskrefin höfum við einmitt tekið vegna þess samtals og samráðs sem við eigum við hinar ýmsu stofnanir og sérfræðinga auk þess að rýna í alþjóðleg kröfusett og evrópskar reglugerðir. Þar horfum við meðal annars til líffjölbreytni, verndargildis og innlendra vistgerða innan skógræktarsvæða. Þrátt fyrir gæðaskrefin, þá má segja að YGG hafi fengið á baukinn í haust í Saltvík við Húsavík. Það eru nefnilega alls ekki allir sammála um aðferðir í skógrækt, gildi skógræktar og í raun valkvæða kolefnismarkaðinn almennt. Í þessum geira dettur nýr lærdómur inn í hverri viku og það er ávallt hægt að gera enn betur og meira, en líklega aldrei í fullkominni sátt.

Samtal og gagnrýni síðustu vikna höfum við nú þegar tekið inn í okkar vinnu. Það þýðir ekki síst að fleiri aðilar með þverfaglega sýn og hagsmuni, munu koma markvisst að borðinu. Við munum læra af umræðunni, bæta til betri vegar og við finnum nú þegar að þessi umræða og gagnrýni á eftir að auka gæði loftslagsaðgerða almennt og þar viljum við vera.