Yggdrasill Carbon —— 03.02.2023
Skógræktin og YGG hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um fyrirhugaða samvinnu varðandi skógræktarverkefni til kolefnisbindingar. Skógræktarstjóri segir mikla þörf fyrir þekkingarfyrirtæki á þessu sviði á Íslandi.
Yggdrasill Carbon ehf. (YGG) hefur á síðustu árum unnið að verkefnum á sviði kolefnisbindingar með áherslu á raunverulega kolefnisbindingu sem er mælanleg og í samræmi við viðurkennda staðla. Félagið er með þrenns konar tilraunaverkefni í gangi á sviði skógræktar sem styðjast við mismunandi staðla sem að mati félagsins hafa þegar eða eru líklegir til að öðlast viðurkenningu hérlendis og á alþjóðavísu. Er félagið þannig að vinna að kolefnisbindingu í gegnum Skógarkolefnisstaðal Skógræktarinnar, en á einnig í samstarfi við alþjóðlegu staðlana VERRA og Gold Standard. Auk áherslu á samstarf um Skógarkolefni og aðra staðla á sviði nýskógræktar stefna Skógræktin og YGG á að leita leiða til að nýta megi með ábyrgum hætti kolefni sem myndast í eldri skógum ef og þegar möguleikar skapast til þess. Þá stefna aðilar á samstarf á sviði fræðslu og ráðgjafar svo unnt sé að nýta þann mikla áhuga sem er til staðar á vottuðum kolefnisbindingarverkefnum til góða fyrir íslenska hagsmuni. Framkvæmdastjóri YGG er Björgvin Stefán Pétursson, en hjá félaginu starfa auk hans reynslumiklir sérfræðingar á sviði skógræktar, umhverfisfræða og landnotkunar.
Skógræktin er öflug þekkingarstofnun á sviði skógræktar og kolefnisbindingar sem fer með eftirlit og framkvæmd laga um skóga og skógrækt á Íslandi og hefur m.a. það verkefni að leiðbeina um vernd, endurheimt, ræktun, meðferð og sjálfbæra nýtingu skóga, vinna að og hvetja til þátttöku í skógrækt, afla og miðla upplýsingum um skóga og skógrækt og hafa yfirsýn og eftirlit með áætlunum og framkvæmdum í skógrækt. Skógræktin hafði frumkvæði að gerð íslenska vottunarstaðalsins Skógarkolefnis fyrir nokkrum árum og hefur unnið að þróun hans.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir gleðiefni að skrifa undir þessa viljayfirlýsingu og formfesta þannig samstarf Skógræktarinnar við YGG. „Við höfum átt í miklum samskiptum við YGG síðustu árin, fyrst eigendur og nú síðustu misseri starfsfólkið, og sjáum að félagið er að leggja áherslu á langtímahugsun og vönduð vinnubrögð. Það er mikil þörf fyrir þekkingarfyrirtæki á þessu sviði á Íslandi og tækifærin eru spennandi,“ segir Þröstur.
Undir þetta tekur Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri YGG. Mikil ánægja sé með þróun þess góða samstarfs sem við fyrirtækið hefur átt við Skógræktina og það öfluga fólk sem vinnur hjá stofnuninni um land allt. „YGG ætlar sér að vera leiðandi fyrirtæki þegar kemur að kolefnisbindingarverkefnum, hvort sem það er á sviði landnýtingar, tækniframfara eða með öðrum hætti,“ segir Björgvin. „Skógrækt skipar þar mjög stóran sess, enda tækifæri á því sviði mikil á Íslandi og hliðaráhrif slíkrar starfsemi almennt mjög jákvæð.“